Reykjavíkurborg notar Flota til stýringar á sínum bílaflota. Við hittum Atla Marel Vokes, deildarstjóra á hverfastöðinni Njarðargötu. Stöðin þjónar Vesturbænum, Miðborg og Austurbæ að Elliðaám.

Hvað varð til þess að þið fóruð að leita að flotastýringarkerfi?
„Ég byrjaði 2013 en þá vorum við ekki að fylgjast með tækjunum okkar. Hér hjá skrifstofu reksturs og umhirði hjá Reykjavíkurborg eru um 100 bílar og mikilvægt að hafa góða yfirsýn. Við þurftum að auka yfirsýnina, geta stýrt og fylgst með hvort allir væru á réttum stað á réttum tíma. Hjá okkur skiptir máli að hafa þessa rauntímastjórnun, þar sem markmið okkar er að auka afköst og bæta þjónustustigið við borgarbúa.
Einnig var umhverfistjórnunarkerfi tekið í notkun hjá borginni á svipuðum tíma, en í framhaldi af því fórum við að fylgjast betur með því hversu mikið er ekið á hverju ári og hversu mikill lausagangur er á bílunum okkar með það fyrir augum að draga úr mengun og stuðla að bættri ímynd í umferðinni . Viðhaldsstýring bifreiða er einföld og góð. Yfirsýnin með Flota kom að góðum notum þar.“


Af hverju varð Floti fyrir valinu?
„Við skoðuðum nokkur kerfi, flest íslensk. Ástæðan fyrir því að við völdum þetta kerfi var að viðmótið var einfalt og aðgengi að starfsmönnum Trackwell var mjög gott og þjónustan góð. Þetta bara virkar.“

Hvað hefur breyst eftir að þið tókuð Flota í notkun, einhver vandamál sem hefur dregið úr?
„Já, það er helst varðandi rekjanleika. Okkar fólk er á ferðinni allan daginn, það er mikið að gera og allt þarf að ganga smurt fyrir sig. Ef við fáum ábendingar um að eitthvað mætti betur fara, t.d. ef upp hefur komið tjón varðandi okkar bíla, þá getum við séð nákvæmlega hvar viðkomandi bíll var þegar málið kom upp.
Þetta skiptir miklu máli, bæði hvað varðar okkar starfsfólk og einnig borgarbúa. Dæmi um mál sem hafa komið upp eru ábendingar varðandi það að þjónustubifreiðar hafi ekki komið á umsaminn stað, hafi komið á röngum tíma eða jafnvel valdið tjóni svo eitthvað sé nefnt. Þá eru allar upplýsingar aðgengilegar varðandi feril bílsins og mögulegt að bregðast við og koma málum í réttan farveg. Það eru þessi rekjanleikavandamál sem leysast með Flota ásamt ýmsum öðrum vandamálum. Var okkar bíll þarna á ákveðnum tíma? Við getum tekið af allan vafa um það.
Við fylgjumst vel með því hvar bílarnir okkar eru svo það gleymist til dæmis ekki að moka snjó eða salta plön, og einnig til að geta svarað fyrirspurnum og gefið íbúum öruggar upplýsingar.“

Hvað notar þú mest?
„Það er rauntímayfirlitið sem gagnast okkur best, að sjá hvar vinnuflokkarnir okkar eru á hverjum tíma. Bílarnir fara á morgnanna út í mismunandi verkefni en stundum kemur eitthvað upp á sem þarf að bregðast strax við. Við viljum geta brugðist fljótt við ábendingum frá íbúum. Reykjavíkurborg er með ábendingavef og það er lifandi þjónusta þar sem viðbragðshraði og þjónusta skipta miklu máli.“

Dæmi um verkefni sem koma upp?
„Ábendingar frá íbúum í gegnum heimasíðu borgarinnar eru af ýmsu tagi, holur í malbiki svo dæmi sé nefnt og yfir vetrartímann snýr þetta oft að hálkuvörnum. Haustverkin þessa dagana snúast til dæmis mikið um að sinna því að hreinsa lauf ofan af niðurföllum og svo tengist þetta einnig götulokunum á viðburðum eins og Menningarnótt.

Svo höfum við auðvitað líka verið að nýta Flota í vetrarþjónustuna, það virkar mjög vel. Þá eru það oftast verktakar sem sjá um að ryðja, moka götur og gangstéttar. Við virkjum þá Flota í þeirra bílum með færanlegum tækjum og sjáum hvað búið er að ryðja, moka og hreinsa. Við höfum í kjölfarið nákvæmt yfirlit yfir, svo dæmi séu tekin, hvað hefur verið hreinsað á hverjum tíma af skólalóðum, bílaplönum og göngustígum hér og þar. Eitt er öryggismál og annað er þjónustan, þessu er varpað út á heimasíðuna og við erum að veita betri þjónustu með þessu. Það er allt aðgengilegt, auðvelt að sjá hver staðan er.“

Skrítnasta erindið?
„Skrítnasta símtalið til okkar sneri að geit sem var laus uppi á Kjalarnesi. Það er líka ýmislegt sem kemur upp, ef t.d. hross fara út af beitarlandi þá getur það komið inn á okkar borð. Síðasta vetur voru t.d. um 20 útköll varðandi lausa göngu hrossa. Við erum með öryggis- og bilanaþjónustu allan sólarhringinn ef eitthvað kemur upp. Ef það verður árekstur og það þarf að hreinsa glerbrot, þá er nauðsynlegt að hafa möguleika á rekjanleika. Við notum kerfið mikið. Við viljum nota það enn meira.“
Hver er helsta breytingin eftir innleiðingu?
„Með rauntímayfirlitinu er mögulegt að stuðla að hærra þjónustustigi og meiri afköstum með yfirliti yfir t.d. heimsóknir, viðdvöl og akstursleiðir.
Fyrir okkur er þetta verkfæri til þess að sinna hlutunum betur, bæði gagnvart okkur og þeim sem við þjónustum. Þetta virkar í báðar áttir, þetta gefur okkur betri yfirsýn inn á við og út á við. Við vitum stöðuna á okkar fólki, getum bætt þjónustuna og aukið gæðin.

Hafðu samband

Hafðu samband í dag til að fá meiri upplýsingar um þjónustu okkar.

+354 5100 600
Laugavegi 178
105 Reykjavík, Iceland

Fréttir

Ertu með tilvísun?

Þjónusta er okkur hjá Trackwell hugleikin, Guðjón, viðskiptastjóri Flotastýringarlausna og maðurinn sem veit allt um Flota skrifar: Flest fyrirtæki byggja á ábendingum og góðu umtali núverandi viðskiptavina. Þessar ábendingar geta orðið grunnur fjölda nýrra...

read more